uppfært 25. ágúst 2020

Í dag lítur nýr vefur hlaup.is dagsins ljós. Vefurinn er afrakstur yfir þriggja ára vinnu þar sem meginmarkmiðið hefur verið að draga heimavöll íslenska hlaupasamfélagsins inn í nútímann og þjónusta hlaupara með enn betri hætti en áður hefur verið gert. Eins og lesendur sjá þá er um að ræða miklar útlitsbreytingar, en kjarnahlutverk hlaup.is er eftir sem áður það sama. Að þjónusta íslenska hlaupasamfélagið með birtingu úrslita og mynda úr hlaupum, utanumhaldi um hlaupadagskrá, skráningum í hlaup og fréttaflutningi svo eitthvað sé nefnt.

Sérstaklega langar okkur til að benda hlaupurum á að á nýjum hlaup.is eignast þeir sitt eigið pláss, svokallað "Mitt hlaup.is", þar sem öllu hlaupatengdu efni viðkomandi er safnað á einn stað, úrslitum, myndum, skráningum, einkunnum, æfingum, eigin hlaupadagskrá, eigið greinasafn og ýmsu fleiru.

Á hinum nýja vef birtast úrslit með mun aðgengilegri hætti en áður en þó ber að nefna að yfirflutningur úrslita stendur enn yfir og nú þegar er að finna úrslit úr allflestum hlaupum á Íslandi síðan 2016. Þegar flutningi úrslita verður lokið þá mun hlaup.is hafa að geyma úrslit úr nær öllum hlaupum sem haldin hafa verið á Íslandi frá 1985. Myndasafn hlaup.is er mun þægilegra í notkun á hinum nýja vef og verður mun auðveldara að kaupa myndir. Sem stendur þá nær hin nýji myndavefur aftur til ársins 2012 en yfirflutningur á eldri myndum stendur yfir og lýkur á næstu vikum.

Á döfinni eru ýmsar nýjungar, eins og komið hefur fram hér að ofan og verða þær kynntar ítarlega þegar þar að kemur. Athygli er vakin á því að opnun á nýjum og stórum vef eins og hlaup.is mun aldrei ganga hnökralaust fyrir sig, því eru lesendur beðnir um að sýna þolinmæði á meðan vefnum er fylgt úr hlaði og senda ábendingar um það sem betur má fara á hlaup@hlaup.is. Þá er einnig bent á að ýmislegt af eldra efni á hlaup.is á eftir að laga að hinum nýja vef. Úr því verður bætt á næstu vikum.

Hlaup.is hefur staðið vaktina í heil 24 ár eða síðan 1996, hinn nýji vefur er svo sannarlega yfirlýsing um að vaktin verði staðin áfram um ókomin ár. Því eru allir, hvar sem þeir eru staddir í íslenska hlaupasamfélaginu hvattir til að halda áfram að venja komu sína á hlaup.is og styðja þannig við bakið á íslenska hlaupasamfélaginu.

Eins og áður segir er hinn nýji vefur afrakstur margra ára vinnu auk þess sem kostnaðurinn hefur verið töluverður við að koma vefnum á koppinn. Auglýsendur eru hvattir til að nýta þá miklu möguleika sem felast í að auglýsa á hlaup.is og þá eru hlaupahaldar hvattir til að nýta sér skráningarþjónustu hlaup.is.

Að lokum er minnt á að  velunnarar hlaup.is geta nú sýnt stuðning í verk og stutt við bakið vefnum með frjálsum framlögum, sjá nánari upplýsingar um það hér á hlaup.is.