Nýrri Hlaupasíðu hleypt af stokkunum 10. maí 2004

birt 10. maí 2004

Nú lítur dagsins ljós nýtt útlit hlaup.is. Bæði er um að ræða algerlega nýtt veftré, nýja liti og nýtt logo. Mikil vinna hefur farið í að færa allt efni frá gamla vefnum yfir á þennan nýja og nokkuð víst að eitthvað af mistökum hafa verið gerð. Ef þið rekið augun í eitthvað sem ekki er að virka, eitthvað vantar eða eitthvað sem betur má fara, þá sendið póst á undirritaðan og látið vita.

Vinna við þessar breytingar hófst í október 2001 og var upphaflega planið að hafa nýja síðu tilbúna um vorið 2002. En þar sem umsjónarmaður er í fullri vinnu annars staðar og hefur einungis tíma aflögu á kvöldin og um helgar, dróst þetta verulega. Það að halda úti efni á gömlu síðunni og gera breytingar þær sem þið sjáið núna, var of tímafrekt og því var ekkert unnið í breytingum frá því á vorin og vel fram á haust. Einnig hefur ofboðsleg vinna farið í að flytja efnið á milli og því er ekki lokið ennþá því allt myndasafnið og gömlu umræðurnar eru eftir. En nú er nóg komið af efni til að hægt sé að opna og ég vona að þið verðið ánægð með nýju Hlaupasíðuna.

Til viðbótar við myndasafnið og gömlu umræðurnar eru ennþá nokkrir hlutir sem þarf að laga og verða í vinnslu á næstu mánuðum, en það snýr fyrst og fremst að útliti og snurfusi á nokkrum síðum. Í úrslitum hlaupa er t.d. ennþá eftir að laga útlit á úrslitasíðum fjögurra ára.

Það er ýmislegt nýtt sem mig langar til að benda á. Fyrst ber að nefna leitina, en hún leitar nú í öllu efni Hlaupasíðunnar. Á gömlu Hlaupasíðunni, var ekki leitað í öllu efninu.

Í öðru lagi sjáið þið núna strax á forsíðunni hvort eitthvað nýtt hefur komið inn á spjallþræðina og hvort einhver ný frétt hefur komið á Hlaupasíðuna. Væntanlegur er síðan listi sem sýnir allt nýtt efni sem kemur inn á Hlaupasíðuna, ekki bara fréttir og spjall.

Valmyndakerfið virkar nú þannig að aðgengi er að öllu efni Hlaupasíðunnar hvaðan sem er. Ef einhver flokkur er valinn úr valmyndakerfinu efst á síðunni, þá birtast jafnan aðrir valmöguleikar úr flokknum í vinstri hlið síðunnar.

Nýtt spjallþráðakerfi er einnig tekið í notkun og er það nokkuð frábrugðið því sem var á gömlu Hlaupasíðunni. Þó er grunn uppbyggingin svipuð. Allar eldri umræður sem komu inn á gömlu Hlaupasíðuna verða fluttar yfir á nýju Hlaupasíðuna á næstunni. Þær verður hægt að finna undir liðnum Spjallþræðir/Gamlar umræður.

Myndasafn Hlaupasíðunnar er ekki aðgengilegt núna, en verður það væntanlega fljótlega. Þá verður tekið í notkun nýtt myndakerfi sem vonandi líkar vel.

Nú verða einnig stærðarupplýsingar aðgengilegri fyrir þá sem versla í verslun Hlaupasíðunnar. Bæði eru það stærðarupplýsingar um fatnað og skó, það er hvernig best er að finna út hvaða stærð af skóm á að kaupa.

Allt nýtt efni er nú sett inn í gegnum vefviðmót, sem eykur möguleika Hlaupasíðunnar á að fá aðstoð ykkar hlaupara sem áhuga hafa á að koma t.d. almennum fréttum á framfæri. Einnig get ég boðið ykkur sem eruð í skokkhópunum upp á að búa til lokuð svæði fyrir skokkhópana, ef áhugi er fyrir hendi.

Að lokum minni ég á að það eruð þið ágætu hlauparar og engir aðrir, sem getið tryggt að Hlaupasíðan vaxi og dafni. Þið gerið það með því að versla á Hlaupasíðunni og þannig borgað í raun "áskriftina" sem annars þyrfti kannski að innheimta á annan hátt. Takk kærlega hlauparar sem verslið og sýnið vilja í verki.

Hlaupakveðja frá umsjónarmanni
Torfi H. Leifsson