Súlur Vertical - Norðlensk fjalladýrð um verslunarmannahelgina

uppfært 10. júlí 2022

66°Norður Súlur Vertical utanvegahlaupið fer fram 30. júlí næstkomandi. Allt stefnir í að hlaupið verði það stærsta frá upphafi og hápunktur verslunarmannahelgarinnar á Akureyri.

Keppt er í þremur vegalengdum 18 km, 28 km og 55 km Ultra. Í öllum tilvikum er ræst í Kjarnaskógi og komið í mark í miðbæ Akureyrar. Lengsta vegalengdin býður upp á 3.000 metra hækkun þar sem hlaupið er upp á bæjarfjöllin Súlur og Hlíðarfjall og um hinn ægifagra Glerárdal.

Nýir hliðarviðburðir fyrir alla fjölskylduna

Sérstaða hlaupsins er annars vegar fjölbreyttar og krefjandi leiðir og hins vegar metnaðarfull umgjörð, en mikið er lagt upp úr upplifun þátttakenda á öllum stigum viðburðarins. „Megináherslan sem fyrr er auðvitað á hlaupin sjálf á laugardeginum en að þessu sinni ætlum við að bjóða upp á ýmsa hliðarviðburði til þess að styðja við hlaupahátíðina,“ segir Þorbergur Ingi Jónsson fjallahlaupari og formaður Súlur Vertical. „Á föstudeginum verður til dæmis bæði krakkahlaup í Kjarnaskógi og menningarskokk með leiðsögn um Akureyri. Keppnisvegalengdirnar sjálfar eru síðan mjög fjölbreyttar og því ættu flestir hlauparar að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og fjölskyldunnar þessa helgi,” segir Þorbergir Ingi.

Skráning lofar góðu

Í fyrra var viðburðurinn haldinn í skugga Covid-19 en þrátt fyrir það hlupu á fjórða hundrað manns við frábærar aðstæður í fádæma veðurblíðu.

Skráning er í fullum gangi og miðar vel, en skipuleggjendur undirbúa sig fyrir langstærsta Súlur Vertical viðburðinn frá upphafi. „Þetta lítur frábærlega út í ár. Skráning lofar góðu, við erum aftur búin að panta gott veður og vonumst til að sem flestir hlauparar heimsæki okkur um verslunarmannahelgina og njóti þess sem norðlensku fjöllin hafa upp á að bjóða,“ segir Þorbergur Ingi.

Hlaup.is spjallið við Þorberg Inga um hlaupið í ár og þar sagði hann okkur m.a. frá nýjungum, sérstöðu hlaupsins, áhorfenda aðgengi og ýmislegt fleira.