Heimsmeistaramót liða í Backyard Ultra 2022 - Viðtöl

uppfært 16. október 2022

Í gær, laugardaginn 15. október, hófu fimmtán hlauparar keppni fyrir Íslands hönd í heimsmeistaramóti í bakgarðshlaupi (Backyard Ultra) í Elliðaárdal. Ræst var á sama tíma í þrjátíu og sjö löndum og eðli hlaupsins er þannig að hlaupinn er 6,7 km hringur á hverjum klukkutíma þar til aðeins einn hlaupari stendur eftir. Samanlagður hringjafjöldi hvers lands telur síðan til heimsmeistaratitils þannig að landið sem nær að hlaupa flestu hringina sigrar. Það er því mikið undir öllum hlaupurum komið, en jafnframt er þetta einstaklingskeppni milli þeirra hér á Íslandi. Sigurvegarinn mun síðan keppa fyrir Íslands hönd eftir eitt ár í Tennesse í Bandaríkjunum.

Alls taka 555 af hlauparar þátt í 37 landsliðum þar sem 15 eru í hverju liði. Hvert lið hleypur í sínu eigin landi og hefja öll lið keppni á nákvæmlega sama tíma. Íslensku keppendurnir fóru af stað á hádegi í gær laugardaginn 15. okt og sem dæmi þá fóru nýsjálensku hlaupararnir af stað þegar klukkan var orðin eitt eftir miðnætti hjá þeim í Nýja-Sjálandi.

Fimmtán bestu íslensku hlaupararnir tryggðu sér sæti í landsliðinu út frá árangri í bakgarðshlaupunum sem haldin hafa verið hérlendis og hófu þeir allir keppni í gær á laugardeginum kl. 12.

Hlaup.is fór á staðinn og tók nokkur viðtöl við hlaupara, áður en þeir lögðu af stað, þau Mari Järsk, Kristján Skúla Skúlason og Þorleif Þorleifsson. Einnig tókum við viðtal við liðsstjórann og einn af skipuleggjendum hlaupsins, Elísabetu Margeirsdóttir og mynduðum upphaf og lok fyrsta hringsins bæði á vídeó og í myndum.

Myndir frá hlaupinu.