Nirbhasa Magee hóf 3100 mílna Sri Chinmoy hlaupið

uppfært 22. september 2022

Nirbhasa Magee, Reykvíkingur sem er upprunalega frá Írlandi, hefur fjórum sinnum lokið lengsta hlaupi heims - Sri Chinmoy 3100 mílna hlaupinu (tæpir 5000 km). Í þessu hlaupi - Sri Chinmoy 3100 mílna hlaupinu - verða þátttakendur að hlaupa meira en 95 km á dag í kringum húsaröð eina í Queens, New York, frá klukkan sex á morgnana til miðnættis til að klára hlaupið innan 52 daga. Nánari upplýsingar um hlaupið og stöðuna.

Hlaupið hófst 4. september, en Nirbhasa þreytti það núna í fimmta sinn. Nirbhasa fékk hinsvegar Covid og náði ekki að byrja fyrr en hlaupið hafði staðið yfir í 3 daga. Hann hafði því einungis 49 daga til að klára hlaupið, en þegar hann hafði hlaupið tæplega 700 km lenti hann aftur í erfiðleikum vegna Covid og neyddist til að hætta.

Nirbhasa hélt skemmtilegt erindi áður en hann hélt til New York til að taka þátt í hlaupinu þar sem hann sagði hvernig hann hefur náð að líta á hlaup sem andlegt ferðalag til að uppgötva sjálfan sig og verða betri manneskja. Hlaup.is tók viðtal við Nirbhasa (sjá hér neðar í greininni) þar sem hann sagði okkur frá sjálfum sér, hlaupinu og hvernig hann nálgast það að hlaupa svona gríðarlega vegalengd.

Nirbhasa sagði að Sri Chinmoy hafi stofnað til fyrsta hlaupsins árið 1997 til að sýna fram á að við erum öllu ótakmörkuð og getum yfirunnið líkamlegar hindranir með andlegum krafti. Sjálfur sagðist Nirbhasa leita í hjartað þegar hugurinn kallar fram hindranir. Í hjartanu sé kærleikurinn og með því að láta hjartað taka stjórnina með kærleikann að vopni nái hann að yfirstíga þær hindranir sem hugurinn kallar fram. Hann segir að með því að vera í huganum eins og barn sem er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og lætur hugsanir ekki hindra sig nái hann líka að yfirstíga þessar andlegu hindranir hugans.

Hann segir að í svona þrekraun, margra daga hlaupum sé nauðsynlegt að hugsa ekki um allt hlaupið, ekki einu sinni daginn, heldur fókusera bara á næsta klukkutíma. Þannig sé hægt að vinna sig hægt og rólega inn í hlaupið svo manni fallist ekki hendur vegna þessa gríðarlega verkefnis sem framundan er. Hann segir líka að hugurinn nái að yfirvinna líkamann með því að vera í núinu og hugsa í lausnum ekki vandamálum eða hindrunum. Hugurinn sé líka bara útvarp sem útvarpar fréttum gærdagsins og morgundagsins, ekki sé hægt að slökkva á þessu útvarpi heldur má bara ekki trúa því :-) Að auki reynir Nirbhasa að vera þakklátur og nýta þakklætið og kærleikann, sem á uppruna sinn í hjartanu, til að yfirstíga hindranirnar sem koma fram í hugann.

Nirbhasa segist ekki hafa verið í neinum íþróttum á sínum yngri árum og verið frekar týpískur "nörd", hafði meiri áhuga á að lesa alfræðibækur en að vera í íþróttum. Þegar hann var í háskóla þá ákvað hann að nota hlaup til að drepa tímann og láta hann líða hraðar og endar svo með því að hreinlega elska hlaup og nota það til að kyrra hugann og losa um orku og stress. Hann byrjaði eins og svo margir á því að hlaupa 5 km og 10 km hlaup og ná tökum á því. Síðan færði hann sig yfir í lengir vegalengdir, hálft maraþon, heilt maraþon, ultra hlaup og svo 6 daga og 10 daga hlaup. Þannig hafi þetta undið upp á sig og farið út í þátttöku í 5000 km hlaupi Sri Chinmoy, sem fram fer núna í New York.

Hlustaðu á viðtalið við Nirbhasa sem hlaup.is tók í ágúst: