Yfirheyrsla: Bryndís María Davíðsdóttir úr UFA-Eyrarskokk

birt 03. nóvember 2014


Bryndís stillir sér upp fyrir ljósmyndara í miðju Jökulsárhlaupi.

Bryndís María Davíðsdóttur hlaupari úr UFA-Eyrarskokki ætlar að hleypa lesendum hlaup.is inn á gafl hjá sér í Yfirheyrslunni þessa vikuna.

Bryndís er hjúkrunarfræðingur og vinnur á sjúkrahúsinu á Akureyri en margir starfsmenn sjúkrahússins hlaupa einmitt með UFA-Eyrarskokki. Þegar kemur að utanvegahlaupum er Bryndís sérstaklega áhugasöm, ekki síst vegna allra útileganna sem þeim fylgja.

Fullt nafn: Bryndís María Davíðsdóttir.

Aldur: 40.

Heimabær: Akureyri.

Fjölskylda: Eiginmaður og fjórir krakkaormar.

Skokkhópur: UFA-Eyrarskokk.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði aðeins að skokka fyrir um tíu árum en svo settu barneignir hlaupin á "hold" í nokkur ár. Ég byrjaði svo aftur árið 2009 og árið 2012 af fullum krafti.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Á malbikinu finnst mér hálfmaraþon svona þægilega erfitt, ég hef bara farið eitt maraþon svo það er varla hægt að kalla það uppáhaldsvegalengd, en skemmtilegt var það engu að síður!

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Í Jökulsárgljúfrum.

Besti hlaupafélaginn? Það eru Sara og Rakel, já og auðvitað Dóra þegar ég er stödd í Reykjavík.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég er ekki mikil merkjamanneskja en ég er mjög hrifin af Craft fatnaði.

Hvernig hlaupaskó áttu? Brooks PureFlow eru langmest notaðir, en ég á nú alveg nokkrar tegundir í viðbót svona til tilbreytingar.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Jákvæðnin - allar æfingar án hennar eru ömurlegar.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Utanvegahlaup eru í uppáhaldi hjá mér, sérstaklega Jökulsárhlaupið, en Fjögurra skóga hlaupið og Grímseyjarhlaupið eru einnig sérlega skemmtileg líka. Erlendis er það Berlínarmaraþonið.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaupa-öppin í símanum mínum, félagarnir McRun og Pace.


Bryndís ásamt þátttakendum í Norðlenska vorþoninu fyrr á þessu ári.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Það væri gaman að hlaupa á Kínamúrnum einhvern daginn.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ég hef engar fastar venjur kvöldið fyrir keppnishlaup, reyni bara að forðast Dominos pizzur og slátur, það er frekar þungt í maga. Morguninn fyrir er það alltaf ristað brauð, banani, appelsínusafi og hálfur kaffibolli.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei - og ég þoli ekki þegar hlaupafélagarnir eru með tónlist í eyrunum. Maður er kannski búin að hafa mikið fyrir því að stynja upp einhverju sniðugu á æfingu og þá er hlaupafélaginn bara að hlusta á Miley Cyrus og missir af brandaranum!

Besti matur eftir keppnishlaup? Grillað lambalæri með bernaise sósu ala Einar.

Hvernig slakar þú á? Ég sofna alltaf ef ég ætla að slaka á, þannig að ég er hætt að reyna það nema í náttfötunum uppi í rúmi á kvöldin.


Sáttar vinkonur að loknu Berlínarmaraþoni.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Á vorin, þegar snjóa fer loksins að leysa.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5K 21:52, 10K 46:17, hálfmaraþon 1:40:39, maraþon 3:43:21.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, eftir æfingaáætlun sem þjálfarar hópsins setja upp.

Hvar hleypur þú helst? Vítt og breitt um Akureyri og nágrenni, Naustaborgir, Kjarnaskógur og Krossanesborgir eru í uppáhaldi.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Þegar ég kom í mark eftir Berlínarmaraþonið þá leið mér svipað og eftir fæðingu barnanna minna - það hefur ekkert hlaup toppað það ennþá!

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Bað nokkrar hlaupavinkonur um hjálp og niðurstaðan var: Harður, hress og hraðaviss nagli!

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? 4-5 sinnum í viku, lengd æfinga mjög misjöfn þessa dagana, frá 8-32km í einu.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Eiga alltaf betri tíma en Dóra í öllum vegalengdum - þarf því að bæta mig í 10K og svo vinna hana í maraþoninu í Munchen! (Skrifað fyrir Munchen maraþonið) En svo fyrir utan tímamarkmið þá er ég alltaf að vinna að því að halda mér meiðslalausri svo ég geti notið þess að hlaupa í mörg ár í viðbót.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Hjóla stöku sinnum og tek skorpur í hinum bráðskemmtilegu styrktaræfingum.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já að sjálfsögðu.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ég les flest sem Stefán Gíslason skrifar, hann er ótrúlega jákvæður og seigur hlaupari.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Nota hlaup.is og set svo líka æfingarnar í exel svona þegar ég nenni því.


Vesturgatan 2013 var engin hindrun fyrir Bryndísi.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já - snilldarsíða!

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Eftir maraþonhlaupið í Berlín í fyrra þá varð ég viðskila við manninn minn í öllum mannfjöldanum á marksvæðinu og ákvað því að taka leigubíl ein uppá hótel. Hótelið var í ca 10 mín göngufjarlægð frá endamarkinu en það var ekki sjens að ég gæti gengið þennan spotta! Ég spjallaði heilmikið við leigubílsstjórann sem dáðist mikið að mér fyrir að hafa hlaupið heilt maraþon og vera frá Íslandi að auki! Ég var ægilega ánægð með mig líka - alveg þangað til bíllinn staðnæmdist við hótelið. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf staðið upp úr bílnum, lærvöðvarnir voru súrir sem mysa og fæturnir harðneituðu að hlýða mér! Ég þurfti því að biðja leigubílsstjórann að draga mig út úr bílnum eins og kartöflupoka og styðja mig að hóteldyrunum. Mér leið alls ekki eins og harðgerðum nagla á þeirri stundu ;)