Yfirheyrsla: Daldís Ýr Guðmundsdóttir úr Laugaskokki

birt 05. júní 2014


Daldís hljóp Laugaveginn árið 2011.

Daldís Ýr Guðmundsdóttir úr Laugaskokki er í yfirheyrslu vikunnar á www.hlaup.is. Daldís er 34 ára og starfar hjá Landsbankanum þar sem mikil og góð hlaupamenning þrífst að hennar sögn auk.  Nú eru fimm ár síðan frændi Daldísar skoraði á hana að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoni í aðdraganda þrítugsafmælis hennar. Í kjölfarið byrjaði hún að hlaupa reglulega  og hleypur í dag að jafnaði 40-50 km í viku, jafnvel meira.

Full nafn: Daldís Ýr Guðmundsdóttir

Aldur: 34 ára

Heimabær: Ég bý í Kópavogi en er uppalin á Selfossi.

Skokkhópur: Laugaskokk

Hvenær byrjaðirðu að hlaupa? Ég byrjaði að hlaupa sumarið 2009 eftir að Óskar Ingi frændi minn skoraði á mig að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í tilefni þrítugsafmælis míns.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Mér finnst gaman og krefjandi að hlaupa hálft maraþon.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Það er skemmtilegast að hlaupa utanvega og sem betur fer eru margir slíkir kostir í nágrenni við borgina.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Það er alltaf gott að byrja daginn úthvíldur og fara út að hlaupa, en mér finnst líka mjög endurnærandi að fara seinni part dags út í ferska loftið eftir vinnudaginn.

Besti hlaupafélaginn? Mér þykir óskaplega vænt um alla vini mína í Göngudeildinni, sem er hópur innan Laugaskokks. Inntökuskilyrðin í þann félagsskap eru mjög ströng og alls ekki á færi allra að standast... sérstaklega ekki þeirra allra hröðustu!

Uppáhalds hlaupafatnaður? Þessa dagana er ég mjög hrifin af fatnaði frá Ronhill, allskonar fídusar og vasar fyrir litla dótið sem fylgir manni á löngum hlaupum. Algjör snilld.

Hvernig hlaupaskó áttu? Brooks eru bestir. Ég á margar týpur frá Brooks og er virkilega ánægð með öll pörin sem ég hef prófað, þeir virðast henta mér mjög vel.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Garmin hlaupaúrið.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Grafningshlaupið er skemmtilegt því það er svo gott að koma að Úlfljótsvatni þar sem Pétur og Lísa hafa tekið vel á móti hlaupurum undanfarin ár. Ég hef ekki mikla reynslu af hlaupum erlendis en ég á góðar minningar frá Munchen maraþoni sem ég hljóp síðastliðið haust.


Föngulegur hópur hlaupkvenna á Ólympíuleikvanginum í Munchen. Daldís lengst t.v.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Það er ekkert sem jafnast á við nýja hlaupaskó, ég leyfi mér að skipta reglulega.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Berlínarmaraþonið verður hlaupið einn daginn. Ég heillaðist af borginni á ferðalagi árið 2001.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Mér finnst gott að borða hvorki of mikið né of þungan mat kvöldið fyrir keppnishlaup. Ég vel oft núðlur og svo er hafragrauturinn klassískt val að morgni keppnisdags.


Himinlifandi eftir frábært hlaup í Munchen.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei, ég hleyp aldrei með tónlist. Mér finnst tónlist á hlaupum truflandi og ég vil frekar veita umhverfinu eftirtekt. Það getur verið hættulegt að vera annars hugar á stígum borgarinnar þar sem gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarendur eru í bland.

Uppáhalds orkudrykkur? Prolong frá Herbalife.

Besti matur eftir keppnishlaup? Ég er oft frekar lystarlaus eftir keppnishlaup og oftast borða ég bara það sem er í boði hverju sinni. Súpa finnst mér oftast góð eftir hlaup.

Hvernig slakar þú á? Það er hægara sagt en gert að fá mig til að slaka á. Það er gott að fara í nudd eða kannski í bíó því þá get ég ekki gert marga hluti í einu.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Afrekalistinn er kannski ekki langur hjá mér, en mér gekk vel í Munchen maraþoninu í október 2013. Mér leið vel allan tíman og allt gekk samkvæmt áætlun og ég lauk hlaupinu á tímanum 3.42.22. Sannkallað draumahlaup við bestu mögulegu aðstæður.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sumarið á Íslandi er dásamlegt en ég hleyp þó úti allan ársins hring.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5km 22.30 / 10km 47.13 / 21,1km 1.43.47 / 42,2km 3.42.22

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, ef ég er með stórt markmið framundan en annars fer ég eftir æfingaáætlun frá Laugaskokki.

Hvar hleypur þú helst? Mest í Laugardalnum og í Fossvogi - alltaf utandyra.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Frekar samviskusamur og skynsamur hlaupari með of lítið keppnisskap.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Ég hleyp 3x í viku og tek gæðaæfingar, spretti, tempó og eitt langt hlaup. Að meðaltali eru þetta 40-50km á viku en oft meira, sérstaklega í undirbúningi fyrir löng hlaup.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já oftast eru mánudagssprettir.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég er farin að hjóla talsvert, sérstaklega yfir sumartímann. Ég er aðeins að leika mér á fjallahjóli en svo er ég á götuhjóli líka og finnst gaman að fara lengri túra á því. Á veturna æfum við saman nokkrar stelpur úr vinnunni undir handleiðslu Hilmars Ólafssonar einkaþjálfara 2x í viku.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Ég á ennþá fullt inni í hlaupunum og ég stefni á að bæt mig í öllum vegalengdum. Næsta stóra markmið er Laugavegurinn í sumar.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Það er ekki hægt að sleppa því að nefna Helen Ólafs, hún er ótrúlega jákvæð og það er hvetjandi fyrir okkur hin að fylgjast með henni og þeim krafti sem hún býr yfir. Mér finnst líka gaman að fylgjast með Ingu Dís Karlsdóttur sem fer mikinn á hlaupabrautinni um þessar mundir.


Daldís t.v. bregður á leik með vinkonum í Gamlárshlaupi ÍR

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Já, ég nota Garmin Connect.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, ætli ég kíki ekki daglega á síðuna.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Ég er ánægð með hvað það er mikið að gerast á síðunni, það hafa orðið jákvæðar breytingar hvað það varðar undanfarið og það kemur reglulega nýtt efni inn.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Í fljótu bragði þá man ég eftir Hamarshlaupinu á 17. júní í fyrra en þá var ég örlítið utan við mig á síðustu metrunum og villtist út úr brautinni. Ég græddi um það bil tvo auka kílómetra en var ótrúlega glöð að mæta Pétri Frantzsyni þar sem ég reiknaði með að hann myndi vísa mér rétta leið. Hann gerði það nú blessaður en skammaði mig svo mikið fyrir að villast að ég hef líklega aldrei hlaupið jafn hratt í mark með skottið á milli lappanna....