Yfirheyrsla: Elín Edda Sigurðardóttir úr Valur skokk

birt 02. nóvember 2015


Í fullum skrúða í síðasta Gamlárshlaupi ÍR.

Elín Edda Sigurðardóttir hlaupari úr Valur skokk hefur verið ansi áberandi í efri sætum íslenskra almenningshlaupa undanfarin misseri. Þessi kraftmikli læknanemi var t.a.m. í þriðja sæti í stigakeppni Powerade sumarhlaupanna.

Þrátt fyrir góðan árangur hefur þessi 26 ára Reykjavíkurmær ekki stundað hlaupin af krafti í langan tíma. Það var ekki fyrr en sumarið 2014 að Elín Edda fór að æfa með Valur skokk en þá hafði hún aðeins hlaupið skipulega í örfá ár. En eins og Elín Edda segir sjálf þá verður ekki aftur snúið og svo virðist sem hlaupabakterían sé komin til að vera.

Sjá fleirir yfirheyrslur á hlaup.is.

Fullt nafn: Elín Edda Sigurðardóttir.

Aldur: 26 ára.

Heimabær: Reykjavík, 101.

Fjölskylda: Kærasti minn heitir Helgi Kristjánsson. Hann er nemi í tölvunarfræði og tónlistarmaður.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég fór fyrst út að skokka 14 ára gömul. Þá var ég að hlaupa 5-6 km nokkrum sinnum í viku. Var lítið að hlaupa á menntaskólaárunum, en fór að gera meira af því upp úr tvítugu. Síðastliðið ár hefur áhuginn margfaldast og ég hef verið dugleg að skrá mig í skipulögð hlaup.

Skokkhópur: Ég hleyp með Valur skokk. Þjálfari hópsins er Óskar Jakobsson.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Í kringum 10 km.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Úti á landsbyggðinni eða á framandi slóðum. Ég hef mjög gaman af því að skoða nýjar borgir á hlaupum.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Mér finnst alveg æðislegt að vakna snemma um helgar og fara út að hlaupa. Þá er svo friðsæl, svo er gott að fara í heita pottinn í Vesturbæjarlauginni á eftir.

Besti hlaupafélaginn? Ef ég ætti að velja einn félaga þá væri það kærastinn. Hann er duglegur að mæta með mér í keppnishlaup. Annars stendur hlaupahópurinn að sjálfsögðu fyrir sínu. Æfingarnar með honum eru krefjandi og skemmtilegar, þar byggir maður upp þolið. Svo finnst mér líka ótrúlega gott að hlaupa ein og hreinsa hugann.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Adidas. Rendurnar eru geggjaðar...

Hvernig hlaupaskó áttu? Adidas energy boozt.


Elín t.v. hafnaði í 3. sæti í stigakeppni Powerade sumarhlaupanna.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Gamlárshlaup ÍR. Mamma dró mig í það hlaup fyrir nokkrum árum og það var fyrsta skipulagða hlaupið sem ég fór í. Þarna kynntist ég því hvað andrúmsloftið í hlaupum er gott. Svo er líka fáránlega gaman að hlaupa í grímubúningi. Annað hlaup sem kemur upp í hugann er Gullspretturinn. Þar er hlaupið í kringum Laugavatn í drullumalli og mýri. Á köflum þarf maður að vaða og jafnvel synda. Þetta var mitt fyrsta utanvegahlaup og ég get ekki beðið eftir að taka þátt í fleiri slíkum. Ég hef ekki ennþá tekið þátt í keppnishlaupi erlendis.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Útiveran.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaupaúrið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Tokyo maraþonið er efst á listanum eins og er. Það er aðallega vegna þess að mig vantar afsökun til að fara aftur til Japan!


Elín Edda ásamt kærasta sínum Helga Kristjánssyni.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir finnst mér best að borða eitthvað orkumikið eins og heimagert spaghetti bolognese. Morguninn fyrir keppnishlaup fæ ég mér annað hvort hið klassíska ab+múslí eða hafragraut.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Það fer eftir aðstæðum. Áður gat ég ekki án hennar verið, en núna geri ég það helst ef ég er ein og innanbæjar. Ég hlusta yfirleitt á eitthvað taktfast popp þegar ég tek spretti og í keppnishlaupum, það heldur manni við efnið. Á rólegum hlaupum hlusta ég á ýmis konar rokk eða jazz.

Uppáhaldsorkudrykkur? Ég er ekki mikið fyrir orkudrykki. Fæ mér stundum Powerade þegar það er gefið eftir hlaup (sem er næstum því alltaf). Er nýbyrjuð að prófa þessi energy gel í keppnishlaupum og finnst þau ágæt.

Besti matur eftir keppnishlaup? Beint eftir er það bara eitthvað létt, t.d. boozt. Þegar maður er búinn að jafna sig er gott að fá sér eitthvað á grillið og með því.

Hvernig slakar þú á? Ég fer í Hot Yoga. Uppáhaldstíminn minn er á föstudögum úti á Seltjarnanesi. Kertaljós og huggulegheit. Sundlaugarnar eru líka ómissandi þegar maður þarf að slaka á.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Ég held að fyrsta Powerade hlaup vetrarins verði að flokkast sem mitt mesta afrek. Þá náði ég mínum besta tíma í 10 km. Það var svolítið sleipt, kolsvarta myrkur og töluverð brekka í lokin. Hljóp svo beint upp í bíl til að mæta á næturvakt.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Hver árstíð hefur sinn rómans. Get eiginlega ekki gert upp á milli, en það er ekki gaman að hlaupa í snjóstormi eða mikilli hálku.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km-19:48; 10 km-39:40 21, 21km-1:30:28; Hef aldrei hlaupið maraþon.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Get ekki beint sagt það. Ég mæti á æfingar þegar ég get og fylgi þá ákveðinni áætlun. Annars reyni ég bara að finna smugur hér og þar í vikunni til að hlaupa.

Hvar hleypur þú helst? Skerjafirði, Nauthólsvík og þar í kring.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Glaðlynd og svolítið þrjósk.


Hressir læknanemar komnir saman að lokinni þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Ég þurfti bara að kíkja á gögnin til að svara þessari. Nú er ég að hlaupa 2-4 sinnum í viku, oftast í kringum 20-30 km og 2-3 klukkustundir á viku.


Elín Edda skálar ásamt Söndru vinonu sinni að loknu Adidas hlaupinu.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, það er ekkert skipulag á því, en ég reyni að leggja áherslu á fjölbreytni. Hjóla mikið á sumrin og er reyndar enn að því, ég fer í Hot Yoga nokkrum sinnum í mánuði og syndi stundum. Ég er ekki mjög dugleg að gera styrktaræfingar, en reyni að bæta því við hér og þar.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Ég sé það fyrir mér í fjarlægri framtíð að þjálfa mig upp fyrir maraþon. Annars líður mér bara vel eins og er og set mér þau markmið til skemmri tíma að bæta persónuleg met. Það má heldur ekki gleyma lífsmarkmiðinu að hlusta á líkamann og fara vel með hann!

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ég á mér enga eina sérstaka fyrirmynd. Hef gaman af því að lesa eða heyra hvernig aðrir hafa farið að og þannig má segja að allir reynsluboltar séu ákveðin fyrirmynd.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, hvoru tveggja er ómissandi.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég nota Strava. Tengi æfingarnar úr garmin úrinu beint við.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, mjög mikið.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Þetta er flott síða. Dettur ekkert í hug eins og er.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Fyrir þremur árum var ég stödd í San Sebastian á Spáni. Ég ákvað að gera það sem mér finnst skemmtilegast, fara í sight-seeing hlaupatúr um borgina. Ég var komin í einhverja 6-7 km fjarlægð frá hótelinu, þegar skyndilega skvettist hvít-gulur ógeðslegur safi yfir mig alla, þar á meðal andlitið. Það fyrsta sem mér datt í hug var að einhver hefði hellt þessu á mig... úr loftinu!?? Komst þó fljótlega að því að sökudólgurinn var stærðarinnar fugl sem ég sá fljúga á brott. Þarna stóð ég því í miðri borg, íklædd stuttbuxum og hlýrabol, öll útötuð í fuglaskít, án peninga og svo langt frá hótelinu að ég vissi ekki einu sinni hvort ég rataði heim. Ég sá kaffihús í grenndinni og rak augun í servíettustand á afgreiðsluborðinu (svona ís-servíettustand). Mér datt í hug að það yrði ekki vinsælt að ganga inn á kaffihús í þessu ástandi svo ég ákvað að spretta inn, rífa bunka af servíettum og spretta svo aftur út og í burtu. Náði því að þurrka einhvern hluta af mér áður en ég hljóp aftur að hótelinu. Það var heldur betur huggulegt að skrúbba storknaðan fuglaskít af sér tæpum 40 mín síðar!