Yfirheyrsla: Elsa María Davíðsdóttir úr Bíddu aðeins

birt 14. júlí 2014


Elsa ásamt Dísu vinkonu sinni eftir New York maraþonið 2011.

Elsa María Davíðsdóttir, hlaupari úr Bíddu aðeins er í yfirheyrslu vikunnar. Elsa er viðskiptafræðingur, gift, þriggja barna móðir og starfar sem verkefnastjóri hjá hjá Motus ehf. Þess má geta að Elsa hljóp Laugaveginn um helgina og óskar hlaup.is henni kærlega til hamingju með árangurinn. Kynnumst Elsu Maríu betur.

Full nafn: Elsa María Davíðsdóttir.

Aldur: 43 ára.

Heimabær: Kópavogur.

Fjölskylda: Eiginmaður og þrjú börn.

Skokkhópur: Bíddu aðeins, Kópavogi.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég hef alltaf haft gaman af því að hlaupa, ég fór á fyrsta hlaupanámskeiðið þegar ég var rúmlega tvítug hjá Mætti í Skeifunni sem varð síðar Hreyfing.

Gaman að segja frá því að í gagnfræðiskóla þá svindluðu stelpurnar oft í leikfiminni og fóru ekki allan hlaupahringinn eins og gengur og gerist, en mín fór alltaf allan hringinn og fannst það mjög gaman, hefði viljað fara lengra. Í Verzlunarskólanum þá voru það ég og Helen Ólafsdóttir sem fórum allan hringinn meðan sumar voru latari og nenntu ekki að hlaupa stóra hringinn.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Humm, ætli það sé ekki hálft maraþon.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Úti í náttúrunni ekki spurning, ótrúlega skemmtilegt að hlaupa meðfram vatni, á, í skógi eða uppi á fjalli í fersku lofti.  Hljóp Snæfellsjökulshlaupið fyrir skemmstu og fann hvað það var æðislegt að anda að sér ferska loftinu þegar maður var kominn í 700 metra hæð. Forðast  að hlaupa inni á hlaupabretti, þar heyrir maður ekki fuglasöng.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Best á laugardagsmorgnum, eftir góðan hafragraut, fullur af orku og eiga síðan allan daginn eftir í fríi, laaangbest.

Besti hlaupafélaginn? Ég verð að segja að það er hún Dísa mín, en við erum búin að hlaupa saman mjög lengi og út um allt s.s. á Spáni og í New York. Síðan eru hlaupafélagarnir mínir í Biddu aðeins allir dásamlegir.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég er ástfangin af hlaupabuxunum mínum frá 2XU sem Scanco flytur inn. Síðan hleyp ég bara í öllu mögulegu, Brooks hlaupajakkarnir eru mjög góðir.

Hvernig hlaupaskó áttu? Brooks hafa komið sterkir inn í ár, sérstaklega Cascadia utanvegaskórnir sem ég er búin að nota mikið í sumar í utanvegaæfingum fyrir Laugaveginn. Annars hef ég alltaf hlaupið í Asics þessi rúm tuttugu ár sem ég hef verið á hlaupum og hafa þeir aldrei klikkað.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Hlaupafélagarnir í Bíddu aðeins og Garmin úrið mitt.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Innanlands er það Jökulsárhlaupið; einstaklega skemmtilegt hlaup og yndislega falleg hlaupaleið frá Dettifossi, meðfram Jökulsárgljúfrinu og endar í Ásbyrgi, ég hef farið það þrisvar þ.e. 33 km. Eina hlaupið sem ég hef farið í erlendis er New York maraþonið 2011, eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert, þvílík stemming sem maður gleymir seint.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin hlaupaúrið er algjör snilld, við erum eitt.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Hvar á ég að byrja,? Berlín, Fenyjar, París, Köben.... Laugavegurinn er að detta inn, er mjög spennt fyrir því.


Elsa tók þátt í Hvítasunnuhlaupi Hauka nú í vor.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir spaghettí og hakk, morguninn fyrir hafragrautur með banana, rúsínum og smá epli.

Besti matur eftir keppnishlaup? Gott að fá ristað brauð með túnfisksalati, síðan klikkar Serrano ekki, gróf baka með tvöföldum skammti af kjúkling nammi namm og fullt af orku.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég var mjög dugleg hér áður að hafa tónlist í eyrunum en það hefur minnkað undanfarið, kannski vegna þess að ég er með svo skemmtilega hlaupafélaga og þarf því ekki að hafa tónlistina. Mér finnst líka gott að heyra náttúruhljóðin og finnst oft skemma fyrir að vera með dúndrandi tónlist. Ef ég ætti að velja tónlist þá er það skemmtilegt gleðipopp.


Elsu finnst skemmtilegast að hlaupa á sumrin.

Uppááhaldsorkudrykkur? Amino energy.

Hvernig slakar þú á? Með því að prjóna eða lesa góða bók.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Mér finnst hvert hlaup vera afrek út af fyrir sig, því ekki er sjálfgefið að geta klárað öll hlaup, margir sem hafa ekki heilsu til að hlaupa og því er ég svo þakklát að geta það meiðslalaus. Það er alltaf yndisleg tilfinning að hlaupa yfir marklínuna í hverju einasta hlaupi sem ég tek þátt í og ég er alltaf sigurvegarinn minn.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sumrin eru skemmtilegust, ég er alltaf með einhver markmið og það er gaman að ná þeim. Ég hef þá oft hlaupið allan ársins hring, maður klæðir sig bara eftir veðrinu og er alltaf fljótur að hitna sama hversu kalt eða hvasst er úti, engin afsökun. Ég lét meira að segja manninn minn skrúfa brodda í hlaupaskóna mína í vetur.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 10 km 54:17. 21 km 2:08. Er með eitt maraþon að baki 4:57 (komst í New York Times en allir sem voru undir 5 tíma komust í blaðið, ég rétt slapp J)

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já eins og er geri ég það þar sem ég er að æfa fyrir Laugaveginn sem er 55 km hlaup. Ég er alltaf með æfingaáætlun þegar ég fer svona lengri hlaup, það margborgar sig og ekkert vit í öðru.  Fyrir New York maraþonið þá útbjó Siggi P. hlaupaprógramm fyrir mig og ég fór eftir því eins og ég gat og hann fór síðan yfir og kom með athugasemdir, það var frábært aðhald og gott að fá góð ráð frá svo reyndum hlaupara.

Hvar hleypur þú helst? Í sumar er ég búin að hlaupa út um allar trissur, mikið utanvega í Heiðmörkinni og hef tekið þátt í nokkrum utanvegahlaupum eins og Grafningshlaupinu, Haukahlaupinu í Hafnarfirði sem var allt utanvega og nú síðast Snæfellsjökulshlaupinu. Lögmannshlíðin á Akureyri er líka yndisleg hlaupaleið og fer ég hana alltaf þegar ég fer norður, þar erum við saman ég og hestarnir.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Gleði, þrautsegja, seigla.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Ég hef verið að hlaupa ca 3-5 sinnum í viku í sumar með nokkrum Esjuferðum. Alveg frá 10 km og upp í 34 km.


Elsa að lokinni Fossavatnsgöngunni sem er 50 km.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já það er svo margt skemmtilegt sem hægt er að gera í hreyfingu.  Ég hef verið að hjóla þó nokkuð og tekið þátt í nokkrum hjólakeppnum eins og til dæmis Gullhringnum á Laugavatni, Bláalónsþrautinni, Jökulmílunni sem er 160 km í kringum Snæfellsnesið.  Hjólið er mjög skemmtilegt og góð æfing samhliða hlaupunum. Ég hef síðan aðeins verið að þreifa mig áfram í sundinu en fór á skriðsundnámskeið í vor og tók þátt í minni fyrstu þríþraut í Kópavogi í sumar.

Ég er líka að klára verkefni eða þraut sem heitir Landvætturinn og er verkefnið að klára fjórar þrautir á tólf mánuðum, þessar þrautir eru Jökulsárhlaupið; 33 km hlaup, Fossavatnsgangan; 50 km skíðaganga, Bláalónsþrautin; 60 km hjól og síðan er 2,5 km sund í Urriðavatni á Egilsstöðum. Ég á bara eftir að klára sundið en að verður nú 26. júlí og þá verð ég formlegur Landvættur.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Alltaf gaman að setja sér markmið og ná þeim og það gerir þetta svo skemmtilegt.  Mig langar að fara fleiri maraþon og er að hugsa um að fara til Berlínar árið 2015, það væri líka gaman að hlaupa maraþon í Reykjavík einhvertímann. Síðan langar mig aftur til New York og upplifa stemminguna þar all over again.....sjáum hvað setur.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Mér finnst Helen Ólafsdóttir rosalega dugleg en við erum jafngamlar. Hún er alveg mögnuð og gefst aldrei upp. Síðan eigum við aðrar flottar hlaupakonur eins og Mörthu Ernst og Evu Einars sem var líka með mér í Versló. Elísabet Margeirs er líka alveg mögnuð í utanvegahlaupunum. Aníta litla er síðan að koma sterk inn og er ungum stúlkum góð fyrirmynd.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Garmin er alveg með þetta, þar er allt skráð og auðvelt að færa yfir í tölvuna og skoða.  Ég færi síðan æfingarnar inn í hlaupaplanið í excel til að bera saman markmið hverrar æfingar og hvernig þau stóðust.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Hlaup.is er algjörlega ómissandi fyrir hlaupara sem eru að taka þátt í hlaupakeppnum því þar eru allar upplýsingar um öll hlaup sem hægt er að taka þátt í á Íslandi. Ég nota hlaup.is mjög mikið, fer þar inn mörgum sinnum í viku. Torfi er einnig mjög duglegur að taka myndir og gaman að skoða þær eftir hlaupin en þær birtast á hlaup.is.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is?  Alltaf má gott bæta.  Skemmtileg hugmynd að taka viðtal við hlaupara og við getum þá orðið öðrum hvatning sem langar að prufa að fara út að hlaupa. Útlitslega þá mætti poppa síðuna aðeins upp, búin að vera mjög lengi eins.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?  Já, ein svolítið fyndin svona eftir á, ég var eitt sinn að hlaupa á Akureyri en ég bjó þar í tvö ár frá 2007 til 2009. Ég var að koma til baka niður í Átak sem er líkamsræktarstöðinn við sjóinn. Á þessum árum var verið að byggja menningarhúsið Hof sem stendur fyrir aftan líkamsræktarstöðina og ég var að koma þarna eftir nokkra kílómetra hlaup í hádeginu á fullri siglingu framhjá Hofi og þarna voru framkvæmdir við göngustíg og einhverveginn rek ég löppina/tánna í múrstein og og missi jafnvægið en dett ekki fyrr en eftir dágóðan tíma, ósjálfráð viðbrögð eru að hlaupa áfram og reyna að halda sér á lofti og maður hleypur áfram  þangað til maður nær jafnvæginu aftur en því miður var þarna grafa á miðjum stígnum og á gröfudekkinu var keðja því þetta var um vetur.

Á endanum hleyp ég á gröfuna og það fyrsta sem rekst í hana er hausinn á mér og hvað haldið þið hausinn fer beint í keðjuna. Ég er líklega eina konan á landinu sem  hefur verið með gröfukeðjufar í hausnum, það sem bjargaði mér var þykka flíshúfan sem ég var með.  Ég endaði síðan fallið á stígnum og rankaði við mér nokkrum sekúndum síðar......allt getur gerst á hlaupum.  Spurning að fara að hlaupa með hjálm?

Einnig er gaman að segja frá því að árið 2008 fékk ég Seigluverðlaun Ungmennafélags Akureyrar en Ungmennafélagið stóð fyrir vetrarhlaupum einu sinni í mánuði yfir veturinn. Ég tók alltaf þátt þegar ég gat, mætti og kláraði hlaupið. Var reyndar aldrei með fyrstu mönnum enda er ég ekki hraður hlaupari, engu að síður er ég mjög stolt af þessum verðlaunum. Í bréfi sem ég fékk sent með verðlaununum stóð:

„Þú hefur mætt í hlaupin og seiglast 10 km á þínum hraða og ekki látið það aftra þér frá því að mæta. Þetta er einmitt rétti andinn í langhlaupunum, það mætir hver á sínum forsendum og keppir við sitt takmark.  Alltof margir setja það hins vegar fyrir sig að vera hægari en aðrir og veigra sér við því að vera með. Það að geta hlaupið 10 km á klukkutíma er eitthvað sem allir ættu að geta verið stoltir af en þar sem það dugar ekki til að ná þeim verðlaunum og viðurkenningum sem fyrstu menn og konur fá ákváðum við að veita þér Seigluverðlaunin í ár."