Yfirheyrsla: Örvar Steingrímsson, utanvegahlaupari með meiru

birt 22. október 2015


Örvar kemur fyrstur í mark í Laugavegshlaupinu 2013.

Örvar Steingrímsson er í Yfirheyrslunni  á hlaup.is þessa vikuna. Hann byrjaði að hlaupa af einhverju viti frekar seint eða árið 2008, en fljótlega fór þessi 36 ára Kópavogsbúi að vekja verskuldaða athygli í íslenska hlaupaheiminum.

Það er ekki síst vegna framgöngu Örvars í utanvegahlaupum sem hlaupaheimurinn hefur veitt honum athygli. Á meðal fjölmargra afreka Örvars er sigur í Laugavegshlaupinu árið 2013 auk þess sem hann tók þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Annecy í Frakklandi síðastliðið vor. Gefum Örvari orðið!

Skoðaðu fleiri yfirheyrslur á hlaup.is

Fullt nafn: Örvar Steingrímsson.

Aldur: 36 ára.

Heimabær: Kópavogur.

Fjölskylda: Giftur Önnu Harðardóttir hjúkrunarfræðingi og eigum við þrjá stráka, Kári 9 ára, Óttar 6 ára og Snorri 2 ára.

Skokkhópur: Hef mest verið að hlaupa einn. Var á tímabili með ÍR Hlaup en er núna í Kaldbakur Running sem er hlaupaleggur matarklúbbs sem við vinirnir erum með.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Var í fótbolta í æsku og bumbubolta eftir tvítugt. Var svo alltaf eitthvað aðeins að hlaupa til að halda mér í formi en það var sjaldan og stutt. Fór fyrsta hálf maraþonið mitt 2008 þegar ég kom heim úr námi frá Noregi en það var með 6 vikna undirbúningi. Í lok árs 2009 byrjaði ég að æfa markvisst og það fyrir Laugaveginn.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Hef fundist skemmtilegast að fara í utanvegahlaupin og þá sérstaklega vegalengdir sem eru lengri en maraþonið.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Í Heiðmörk finnst mér best að vera. Eitt skref út úr garðinum og þá er maður nánast kominn inn í Heiðmörk. Þórsmörk er sömuleiðis mjög heillandi.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Best að hlaupa í hádeginu eða eftir vinnu ef völ er á því en hleyp mikið á kvöldin og á þeim tíma sem hentar fjölskyldunni best.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Úrið, finnst skammarlega gaman að eiga öll hlaupin mín skráð og skjalfærð.


Vel merktur með gleði og jákvæðni í farteskinu.

Besti hlaupafélaginn? Ég og Guðni Páll Pálsson æfðum mikið saman fyrir Heimsmeistaramótið í Annecy og var það ómetanlegt að hafa einhvern með sér í því.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Finnst CW-X hlaupa buxurnar mínar frábærar, fann mikinn mun á erfiðum og löngum æfingu í vetur og vor. Keppi sömuleiðis alltaf í þeim.

Hvernig hlaupaskó áttu? Hef verið að hlaupa í La Sportiva Helios utanvega og á núna frábæra Adidas skó sem ég notaði í Berlín. Annars hef ég átt flestar tegundir í gegnum árin.

Uppáhaldshlaup innanlands og erlendis? Þau eru svo mörg, Laugavegurinn, Hengilshlaupið og Jökulsárhlaupið ásamt Esju Ultra en Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupi í Annecy var það skemmtilegasta.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Finnst gaman af öllum þeim búnaði sem tengist ultra hlaupunum. Drykkjarbakpokar, höfuðljós og stafir hafa hjálpað mikið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? UTMB, stærsta ultra hlaup í heiminum. Hlaupið í kringum Mount Blanc í gegnum Frakkland, Sviss og Ítalíu og fullt fullt af fjöllum.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Fæ mér yfirleitt góða og einfalda pasta máltíð kvöldið fyrir hlaup, passa að drekka vel dagana á undan fyrir stórt hlaup. Um morgun fyrir keppnishlaup fæ ég mér nánast það sama og ég fæ mér á hverjum degi, það er hafragrautur með Chia, döðlum, bláberjum og banana og sömuleiðis te með hunangi.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já og nei. Hef notast við æfingaáætlanir fyrir maraþon og í að reyna að auka hraða. Fyrir utanvegahlaupin hleyp ég yfirleitt mjög frjálslega. En auðvitað eru alltaf mikið af lykilæfingum sem ég þekki og nota sem gera æfingarnar markvissar markvissar æfingar.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Það er mjög misjafnt eftir því hvað ég hef mikinn tíma til aflögu. Reyni að fara 5-6x og frá 50km upp í 100km þegar ég er að æfa af krafti. Reyni samt að halda jafnvægi milli heimilis, vinnu og hlaupa.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ekki nægilega duglegur við það, reyni samt að taka tímabil í að styrkja mig og svo fer ég á skíði á veturna.


Örvar nýtur sín best í guðsgrænni náttúrunni, utan vega.

Hvernig slakar þú á? Besta slökunin frá amstri dagsins er að fara út að hlaupa en annars er mjög gott að komast upp í bústað með fjölskyldunni. Svo slaka ég vel á í sófanum heima fyrir framan sjónvarpið með frúnni.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Aldrei keppt á braut en að vinna Laugaveginn 2013 er mér kærast. Að hafa farið á heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum núna í sumar var líka ótrúleg reynsla.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Á sumrin, annars er alltaf mjög fallegt í góðu veðri á haustin og á vorin.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 17:20 í 5 km, 35:03 í 10 km, 1:17:39 í hálfu og 2:44:30 í maraþoni. Búinn að ná bætingu í öllum vegalengdum núna í haust nema í 5 km sem ég hef ekki keppt í lengi.


Það fylgja því forréttindi að hlaupa á fjöll og njóta útsýnis.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Yfirleitt ekki, hleyp mikið án tónlistar en hef í gegnum tíðina hlustað mikið á hljóðbækur á hlaupum. Ef ég er á bretti finnst mér nauðsynlegt að vera með tónlist, hlusta þá á það sem mér finnst skemmtilegt þann daginn.

Uppáhaldsorkudrykkur? Hef fundist GU salt og steinefna töflur virka vel út í vatnið. Annars er Powerade-ið alltaf klassískt.

Besti matur eftir keppnishlaup? Maginn er yfirleitt nokkuð lengi í gang eftir erfið hlaup og því oft best að fá sér eitthvað djúsi, góður hamborgari og bjór er alltaf gott. Matarlystin kemur yfirleitt daginn eftir og þá er gott að gera vel við sig.

Hvar hleypur þú helst? Í Heiðmörk og í kringum Elliðavatn þar sem ég bý.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Duglegur utanvegahlaupari.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já finnst mjög mikilvægt að vinna í hraða og það reglulega.


Örvar einbeittur í götuhlaupi.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Fyrst og fremst að vera heill og hafa gaman af hlaupum. Til lengri tíma er að fara lengra og hraðar.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Í sjálfu sér ekki. Hef farið eftir orðum Dean Karnazes „Listen to everyone, follow no one" sem myndi þýðast sem: Hlustaðu á alla, fylgdu engum.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Set allar mínar æfingar inná Strava og finnst frábært að þar sé að byggjast upp hlaupasamfélag svipað og var með hlaupadagbókina hérna um árið.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já mjög reglulega. Skoða hvaða hlaup eru á dagskrá, úrslit úr hlaupum og sömuleiðis skemmtilegar umfjallanir og viðtöl.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Innihaldið er frábært en mætti nútímavæða heimasíðuna.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Alltaf til margar skemmtilegar sögur en erfitt að útlista þær hér.