Yfirheyrsla: Stefán Viðar Sigtryggsson

birt 27. ágúst 2014


Stefán á ferðinni í Þorvaldsdal í góðum félagsskap.

Stefán Viðar Sigtryggsson er næsti viðmælandi í Yfirheyrslunni hér á hlaup.is. Stefán er þrautreyndur hlaupari sem á heldur betur flotta tíma. Þá er hann einkar góður utanvegahlaupari.

Endilega lesið yfirheyrsluna sem er í fyndnara lagi að þessu sinni enda lumar Stefán á skemmtilegum sögum sem m.a. tengjast Laugaveginum, blöðrum og sárum geirvörtum.

Fullt nafn: Stefán Viðar Sigtryggsson.

Aldur: 44 ára.

Heimabær: Höfn í augnablikinu.

Fjölskylda: Er giftur Helgu Árnadóttur og eigum við tvo stráka, Theódór Árna sem er þriggja ára og Kristófer Örn sem er níu mánaða.

Skokkhópur: Ég skokkaði með Laugaskokki þegar ég bjó í Reykjavík, hérna er það bara ég og Spói(hundurinn okkar) og stundum frúin líka.

Hvenær byrjaðiru að hlaupa? Eins árs eins og flestir, hélt því svo við fram eftir aldri með þáttöku í skólaleikfimi og tuðrusparki sem var svo sjálfhætt vegna krossbandsslits númer tvö árið 1996. Þannig að 97‘ byrjaði ég að skokka af og til hér og þar. En byrjaði ekki að æfa hlaup eftir prógrammi fyrr en 2004-5.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? 10km á götu og 30km utanvega.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Úti í náttúrunni á góðum slóða td. Jökulsárgljúfur og Heiðmörk.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Mér líður best í skrokknum seinni part dags

Besti hlaupafélaginn? Ævar og Dúnkurinn, Frúin og Spói og svo bara sá sem nennir að drattast með manni í það og það skiptið.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ron Hill stuttbuxurnar mínar, ekki spurning.

Hvernig hlaupaskó áttu? Newton.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Ætlaði að segja hlaupaskór, man svo eftir atviki þar sem að ég gleymdi hlaupaskónum heima þannig að ég tók interval æfinguna í golfskónum mínum. Ætli það sé ekki bara Garmin eða Endomodo til að geta passað upp á að fara ekki fram úr sér æfingalega séð.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Gullspretturinn kemur strax í hugann, það hlaup hefur bara allt það sem að gott stutt utanvega keppnishlaup á að hafa. Miami maraþonið er í uppáhaldi af því að þar setti ég mitt PB í marathoni. Og það er hægt að fara í siglingu um karabíska hafið strax eftir hlaup.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Góður púlsmælir.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Laugavegshlaupið, þar sem ég kem fyrstur í mark.


Stefán ásamt Berki hlaupafélaga sínum í Vesturdal.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ekkert spáð í það, reyni bara að vera skynsamur.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Já, fer eftir vegalengd og hraða, ef það er langt þá eru Sigurrós góðir og í styttri hlaup eithvað léttmeti eins og t.d. Coldplay.

Uppáhaldsorkudrykkur? Wingfood, chiafrædrykkur.

Besti matur eftir keppnishlaup? Eithvað próteinríkt og feitt

Hvernig slakar þú á? Hmmm með tvo tiltölulega nýfædda stráka þá er það þegar ég er úti að hlaupa og svo þessa 6 tíma sem ég sef.


Stefán rétt ókominn í mark á Lækjargötunni.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Ætli það sé ekki 10 km hlaupið sem ég vann daginn eftir að ég vann Maraþonið á Mývatni, líklega mesta og vitlausasta afrekið á ferlinum. Heyrðu svo var það Fire and Ice hlaupið sem er 250km á 6 dögum frá Kverkfjöllum niður í Ásbyrgi, með allt nema tjaldið á bakinu. Það var ansi magnað og gaman.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sumrin, en hinar árstíðarnar eru ágætar líka í sæmilegum veðrum.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 16:53, 34:55, 1:17:27 og 2:44:34

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já.

Hvar hleypur þú helst? Um Höfn og nærsveitir.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ágætur hlaupari en byrjar stundum(næstum alltaf) of hratt.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Núna of sjaldan, þegar markmið eru í gangi þá 6-7 sinnum í viku ,80-140km og í það fara 7-13 tímar á viku.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Núna er golf svolítið stundað og svo reyni ég að halda sundkunnáttu við (Tveir járnkarlar að baki).

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já já, til að hlaupa hraðar verður maður að æfa hraðar líka.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Skammtíma markmið er að nálgast fyrri hraða og getu og langtíma markmið er að vera hlaupandi afi upp um fjöll og firnindi.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ívar Adólfs, hann er svona gaur sem hleypur maraþon ár eftir árí kring um 3 klukkustundir og alltaf meiðslalaus, hef ekki séð marga leika það eftir. Varðandi langtíma markmiðið þá er það Ingólfur frá Barðsnesi.


Stefán í Snæfellsjökulshlaupinu enn í góðum félagsskap.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já þegar ég er að taka þátt í hlaupum, annars ekkert voða oft.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég notast við Garmin Connect og Endomondo, svo bara gamla góða excel.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Veit nú ekki hversu skemmtileg hún er en allavega þá byrjaði ég að taka þátt í hlaupum eftir að ég hætti í fótboltanum.Tók þátt í nokkrum 10 km hlaupum og ákvað svo að það væri sniðugt að hlaupa þennan Laugaveg, væri kannski svolítið challenge í því. Þetta var árið 1998 og aðgengi að upplýsingum um hlaup var frekar takmarkað á þeim tíma, eða ég var kannski ekkert að spá of mikið í þessa hluti. Mætti svo niður í Laugardal og upp í rútu í startið. Tók eftir því að menn voru að smyrja sig alla hátt og lágt með vaselíni og að þröngu hlaupabuxurnar sem þeir voru flestir í voru ekki langar Speedo sundskýlur eins og ég var í.

Ég rauk af stað í startinu og ákvað að fylgja fyrsta manni (Steinari Friðgeirs) svo maður færi nú alveg örugglega réttu leið. Steinar var stundum ekki nógu hraður fyrir mig þannig að ég fór nú stundum á undan honum, lenti í því að fara í gegnum snjóinn yfir einu gilinu. Það hægði aðeins á mér. Ég var fyrstur að stöðinni við Álftavatn, staldra þar við og fæ mér að drekka enda ekki með neitt á mér og ekkert búin að drekka síðan úr Hrafntinnuskeri Steinar töltir bara framhjá stöðinni örugglega að hugsa hvaða bjáni  þetta væri eiginlega???. Eftir Álftavatn var ég eiginlega búin að fá nóg af hlaupum en taldi að það gæti nú ekki verið mikið eftir.

Á söndunum ekki langt frá Emstrum hlaupa Bjartmar Birgis, Bryndís Ernst og Arnaldur Gylfa fram úr mér, eitthvað hef ég verið aumingjalegur því að Bryndís lætur mig fá einn af vatnsbrúsunum sínum. Svo tínast nokkrir hlauparar fram úr mér eftir þetta og alltaf er sagt KOMASO STUTT EFTIR. Loks kem ég í mark í 11. sæti á tímanum 6:08, frekar mikið blóðgaður og sár á geirvörtum, innanlærum og handarkrikum. Þetta hafðist semsagt og lærdómurinn er að maður á bara að Just do it með smá dassi af skynsemi... hmmmm já og ekki hlaupa í sundbuxum yfir hálendið.