Yfirheyrsla: Þórólfur Ingi Þórsson úr ÍR

birt 27. október 2016

Nú tökum við upp þráðinn að nýju í hinni sívinsælu „Yfirheyrslu." Að þessu sinni fengum við hin öfluga hlaupara Þórólf Inga Þórsson til að svara nokkrum vel völdum spurningum. Hlauparar landsins ættu að kannast við Þórólf enda hefur hann verið áberandi í verðlaunasætum í almenningshlaupum á undanförnum misserum. Á undanförnum árum hefur Þórólfur lagt mikið í hlaupin og æfir nú undir stjórn Gunnars Páls Jóakimssonar hjá ÍR.

„Ég byrjaði að hlaupa árið 2002 fyrir tilstilli Bryndísar Baldursdóttur (Bibbu) en við vorum að vinna á sama stað á þeim tíma. Fyrst um sinn  hljóp ég með Námsflokkum Reykjavíkur, ég man það vel hversu erfiður 3 km hringur í Laugardalnum var fyrst þegar ég var að byrja. Ég hafði ekki hreyft mig í mörg ár, en þegar ég var krakki hjólaði ég mikið í Keflavík þar sem ég ólst upp," segir Þórólfur um tildrög þess að hann fór að hlaupa.

Eins og áður segir leggur Þórólfur blóð svita og tár í hlaupin sem að. „Ég setti mér ákveðin markmið fyrir árið 2016 og byrjun árs fór ég að leita mér að samstarfsaðilum sem gekk vel og er ég einstaklega ánægður með að vera styrktur af Adidas á Íslandi, Garmin búðinni, Hleðslu, Leppin og Squeezy. Svo á ég líka gott fólk að sem styður mig og aðstoðar m.a. með barnapössun svo ég komist á æfingar og keppnir, sérstaklega á ég pabba mikið að þakka," segir Þórólfur áður en við hefjum yfirheyrsluna. 

Fullt nafn: Þórólfur Ingi Þórsson.

Aldur: 40 ára.

Heimabær: Reykjavík.

Fjölskylda: Faðir með þrjú börn, Gabríel 18 ára, Lilju 9 ára og Sonju 5 ára.

Skokkhópur: Ég æfi hjá Gunnari Páli Jóakimssyni í ÍR og hef gert síðustu ár. Frábær þjálfari með flottan hóp.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? 2002, fyrsta keppnishlaupið mitt var Námsflokkahlaupið 8.júlí það ár.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Eftir gott gengi í byrjun árs í 5 km þá verð ég að segja að sú vegalengd sé í uppáhaldi ásamt hálfmaraþoni. En gjörólíkt hvernig maður tæklar þessar tvær vegalengdir.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Skiptir ekki öllu máli, en það er mjög gaman að fara í Elliðaárdalinn, Heiðmörkina og Fossvog út á Ægisíðu.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Flestar æfingar mínar eru seinnipartinn. En á vorin þegar hálkan er farin og farið að birta þá finnst mér gott að taka fimmtudags tempó á kvöldin.

Besti hlaupafélaginn? Það fer alveg eftir því hvernig æfing er eða hvar í æfingarferlinu ég er.  Ég er að æfa með frábærum hóp hjá ÍR, mjög metnaðarfullir einstaklingar og virkilega gaman og hvetjandi að hlaupa með þeim. Mér finnst mjög gott að vera með hópnum þegar ég þarf að taka spretti og erfiðar æfingar. Líka ef mér líður þannig að formið sé ekki gott, þá er gott að hitta þau og fá þau til að draga mig áfram.

Ég hleyp töluvert einn og hlusta á tónlist. Ef ég er ekki með hópnum eða einn þá hleyp ég oftast með Benoit Branger, góðum vini mínum.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég hleyp í Adidas fatnaði og líkar það mjög vel.

Hvernig hlaupaskó áttu? Adidas Ultra Boost sem eru frábærir á milli- og löngum æfingum. Ég keppi í Adidas Adizero Adios. Báðar týpurnar eru með Continental sóla sem er mjög endingargóður.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Æfingaáætlun og Garmin úrið. Á löngum æfingum og tempó æfingum verð ég að hafa gel meðferðis.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Ekkert sérstakt hér heima, mér finnst skemmtilegast að taka þátt í hlaupum þar sem maður finnur að þeir sem eru að skipuleggja hafa lagt alúð sína í undirbúning og framkvæmd samanber Fossvogshlaup Víkings.
Mér er minnistætt eitt hlaup í Danmörku sem ég hljóp fyrir mörgum árum er ég var þar í vinnuferð. Þá var hlaupinn 5 km hringur og maður réð því hvort maður hætti eftir 5 km,10 km eða 15 km, meðan á hlaupinu stóð.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin 630 úrið sem ég er alltaf með á mér. Adidas skórnir eru líka ómissandi.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Chicago, Boston og New York maraþon. Comrades og Jökulsárhlaupið. Svo væri gaman að fara á Norðurlanda og/eða Evrópumót öldunga í nánustu framtíð.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Það vill svo til að fyrir bætingu í hálfu í haust og svo bætingu í 5 km núna í vor var ég í grillveislu hjá vinahjónum mínum. Í fyrra skiptið var stór nautasteik með öllu og í vor var það stór borgari. Það hentar mér mjög vel að borða stóra máltíð kvöldið fyrir keppni. Að morgni borða ég hafragraut og svo hálfa til eina beyglu.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Já geri það þegar ég tek æfingar einn. Ef ég er að taka tempó æfingu þá hlusta á eitthvað gott rokk, popp eða funk. Í niðurskokki og í teygjum þá hlusta ég á rólega tónlist. Það helsta sem er á Ipodinum er Gus Gus, Bloodgroup, Red Hot Chilli Peppers, Propellerhads, Moses Hightower og Jamiroquai.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Mjög misjafnt, með árunum er ég farinn að hlusta meira á kroppinn og er alveg hættur að hugsa um magn nema ég sé að æfa fyrir maraþon. Hleyp oftast fimm sinnum í viku, en ég hugsa fyrst og fremst um gæði æfingarinnar og tilgang hennar.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég geri styrktaræfingar heima.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, mikið af sprettum, frá 200m og upp úr.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Hlaupa alla mína lífstíð en til skemmri tíma er það að vera besti 40 ára + hlauparinn á Íslandi.

Uppáhaldsorkudrykkur? Leppin á æfingu og svo Squeezy og Hleðsla eftir æfingar.

Besti matur eftir keppnishlaup? Það fer alveg eftir því hvenær dags/kvölds það er. En stór hamborgari kemur sterkur inn.

Hvernig slakar þú á? Ekki mín sterka hlið. En ég er að æfa mig :) Er byrjaður að fara reglulega í heita pottinn til að hvíla og nudda kroppinn.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Veit ekki, en mér fannst gaman að vera þriðji á Íslandsmeistaramótinu í 5 km í Víðavangshlaupi Íslands. Svo náði ég góðri bætingu í hálfmaraþoni haustið 2015 þrátt fyrir engan undirbúning,hljóp eftir tilfinningu en ekki klukku.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Seint að vori þegar farið er að birta og klakinn farinn af stígunum.

Bestu tímar? 
800m 2:11:64 mín (innanhús 2016)
1.500m 4:21:87 mín (innanhús 2016)
3.000m 9:26:10 (innanhús 2016)
5km 16:23 (2016) Íslandsmet 35-39 ára.
10km 34:08 (2016)
21,1km 1:15:29 (2016)
42,2km 2:56:19 (2014)

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, Gunni Palli þjálfari setur upp allar mínar æfingar.

Hvar hleypur þú helst? Ég bý við Laugardalinn og því hleyp ég mikið þar. Tempó æfingar tek ég oftast í Fossvogi og Ægisíðu. Svo finnst mér mjög gaman að fara í hlíðina í Elliðaárdalnum.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ég hleyp til að hafa gaman og líða betur.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Já nokkrar. Hafsteinn Óskarsson, Sigurjón Sigurbjörnsson og Ívar Trausti Jósafatsson hafa gefið mér von um að ég geti hlaupið hratt og vel þótt maður sé ekki lengur þrjátíu og eitthvað. Ármann Albertsson, fyrir utan að vera fantagóður hlaupari þá er hann svakalega góður að hvetja aðra áfram, eitthvað sem ég hef reynt að tileinka mér. Kári Steinn Karlsson, ég dáist að sterku "mindsetti" hans.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti?Já þær fara sjálfkrafa af Garmin 630 inn á Garmin Connect og Strava.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já mjög reglulega sérstaklega á vorin og sumrin, þá helst hlaupadagskrána og einkunnagjöf hlaupa.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Eiginlega ekki, mér finnst Torfi hjá hlaup.is eiga mikið hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hann hefur unnið fyrir okkur hlauparana á Íslandi í gegnum árin. Það er skemmtileg viðbót að hafa upplýsingar á Facebooksíðu hlaup.is þegar Íslendingar eru að hlaupa maraþon erlendis.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Mér er alltaf minnistætt nokkru áður en ég byrjaði að hlaupa, þá var ég að vinna hjá Hug forritaþróun og þar var Bibba (Bryndís Baldursdóttir) samstarfsfélagi minn og hún var á fullu í hlaupum og hreyfingu. Einn morguninn í grenjandi rigningu hitti ég hana við innganginn þar sem hún kom hlaupandi í vinnuna. Ég átti ekki til orð hvernig henni dytti í hug að vera úti að hlaupa í rigningunni. En viti menn, það leið ekki á löngu þar til ég og fleiri á vinnustaðnum vorum farin út að hlaupa. Ég á Bibbu mikið að þakka.