Yfirheyrsla: Vigdís Hallgrímsdóttir úr TKS

birt 30. júlí 2014


Vigdís, eiginmaðurinn Brynjúlfur og dæturnar Sigurlaug
og Bryndís eftir Reykjavíkurmaraþon árið 2012

Vigdís Hallgrímsdóttir er hjúkrunarfræðingur og starfar sem verkefnastjóri á skurðlækningasviði Landspítalans. Hún byrjaði að hlaupa á unglingsárunum en hlaupin hafa verið markviss frá árinu 2005.

Í dag hleypur Vigdís með Trimmklúbbi Seltjarnarness (TKS) og sér um þjálfun hópsins í samstarfi við Hansínu Þóru Gunnarsdóttur. Auk þess æfir Vigdís  sund og hjólreiðar með Ægi þríþraut enda hefur þríþrautin heillað hana meir og meir undanfarin ár.

Fullt nafn: Vigdís Hallgrímsdóttir.

Aldur: 40 ára.

Heimabær: Seltjarnarnes.

Fjölskylda: Ég er gift Brynjúlfi Halldórssyni matreiðslumeistara og hlaupara og við eigum tvær stelpur Sigurlaugu 13 ára og Bryndísi 11 ára.

Skokkhópur: Ég hef hlaupið með Trimmklúbbi Seltjarnarness frá 2009, en þá um sumarið hljóp ég Laugarveginn og fannst tilvalið að æfa með hóp til að fá stuðning og hitta aðra hlaupara sem eru fúsir að miðla af reynslu sinni.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Hálft maraþon, það er krefjandi vegalengd sem maður þarf að undirbúa sig vel fyrir ef vel á að ganga.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa?  Ég hef hlaupið frá því á unglingsárunum en segja má að ég hafi hlaupið með markvissum hætti frá árinu 2005 en þá hljóp ég fyrst 10 km í Reykjavíkurmaraþoni. Eftir það var ekki aftur snúið.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Á Seltjarnarnesi, ekki spurning. Það er alltaf hressandi að hlaupa út fyrir Bakkatjörn. Stundum mætir manni fallegt sólarlag eða dansandi norðurljós þó að oft þurfi að glíma við töluverðan mótvind.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Mér finnst best að hlaupa á morgnana. Þá fer maður endurnærður inn í daginn.

Besti hlaupafélaginn? Sigrún systir, við höfum tekið margar hlaupaæfingar saman í gegnum tíðina og hvatt hvora aðra áfram. Binni, maðurinn minn, fór síðan að hlaupa fyrir rúmlega tveimur árum og hann er mjög góður hlaupafélagi þó svo að hann sé farinn að hlaupa full hratt fyrir minn smekk.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ronhill, keypti mér nýlega alveg frábæran jakka frá þeim sem er einstaklega léttur og þægilegur.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góður félagsskapur.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Neshlaupið er skemmtilegast, þó ég hlaupi það aldrei. Þar eru félagsmenn í TKS í góðum gír við að gera hlaupið sem best úr garði og síðan koma allir brosandi í mark. Ég hef hlaupið tvö maraþon erlendis, London og Berlín, sem er mjög erfitt að gera upp á milli. Berlín á samt vinninginn því þá var ég að halda upp á 40 ára afmælið mitt.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin 910, ekki spurning.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? New York maraþonið.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninnn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir keppnishlaup borða ég oftast pasta eða núðlur og í morgunmat hef ég vanið mig á að borða hafragraut og ávöxt og drekka eitt glas af rauðrófusafa.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei.

Uppáhaldsorkudrykkur? Enginn sérstakur

Hvernig hlaupaskó áttu? Asics Nimbus og Brooks Ghost.


Vigdís og Brynjúlfur að loknu Berlínarmaraþoni 2013.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góður félagsskapur.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Neshlaupið er skemmtilegast, þó ég hlaupi það aldrei. Þar eru félagsmenn í TKS í góðum gír við að gera hlaupið sem best úr garði og síðan koma allir brosandi í mark. Ég hef hlaupið tvö maraþon erlendis, London og Berlín, sem er mjög erfitt að gera upp á milli. Berlín á samt vinninginn því þá var ég að halda upp á 40 ára afmælið mitt.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin 910, ekki spurning.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? New York maraþonið.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninnn fyrir kepnishlaup? Kvöldið fyrir keppnishlaup borða ég oftast pasta eða núðlur og í morgunmat hef ég vanið mig á að borða hafragraut og ávöxt og drekka eitt glas af rauðrófusafa.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei.

Uppáhaldsorkudrykkur? Enginn sérstakur.


Vigdís tv. og Sigrún vinkonar hennar eftir London maraþonið 2012 ásamt syni Sigrúnar, Hallgrími Orra.

Besti matur eftir keppnishlaup? Strax eftir hlaup er gott að fá banana og kókómjólk en þegar frá líður þarf maður einhverja meiri orku og þá finnst mér heimatilbúin pizza alltaf standa fyrir sínu.

Hvernig slakar þú á? Ég reyni að passa upp á að fá nægan svefn til að hafa orku í æfingarnar en annars slaka ég best á í fríi með fjölskyldunni.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? London maraþon 2012 á tímanum 03:35:20.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Vorin.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km 22:30, 10 km 45:30, 21,1 km 01:41:32, 42,2 km 03:35:20.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já.

Hvar hleypur þú helst? Á Seltjarnarnesi og næsta nágrenni.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Samviskusöm og yfirveguð með takmarkað keppnisskap.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Í vetur lét ég þrjú hlaup í viku duga þar sem ég þarf að hafa tíma til að hjóla og synda líka. Hlaupamagnið s.l. mánuði hefur verið á bilinu 30 - 45 km á viku.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég stunda þríþraut og syndi því og hjóla 2 -3 x í viku. Auk þess reyni ég að koma 1 - 2 styrktaræfingum inn í vikuna líka.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum?
Í sumar er markmiðið að taka þátt í þeim þrírþrautarkeppnum sem eru í boði á Íslandi með áherslu á að bæta hjólatímana mína. Það getur vel hugsast að ég taki þátt í eins og einni hjólakeppni líka. Annars er ég eiginlega ekki farin að hugsa neitt mikið lengra fram í tímann en það má vel vera að stefnan verði tekin á heilt maraþon á árinu 2015.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum?
Það eru ýmsir sem ég hef tekið mér til fyrirmyndar þegar hlaup og líkamsrækt eru annars vegar. Það eru ótrúlega margar hversdagshetjur í hlaupunum. Jörundur S. Guðmundsson er ein af þeim en hann hefur oft gefið mér góð ráð og sýnt mér að það er hægt að hlaupa allt lífið. Jóna Hildur Bjarnadóttir almenningsíþróttafrömuður og frænka mín hefur líka verið góð fyrirmynd og ég leitaði mikið til hennar þegar ég var að byrja að hlaupa. Í vetur hef ég síðan kynnst alveg frábæru fólki í Ægi þríþraut sem leggur mikið á sig til að ná markmiðum sínum. Þau eru frábærar fyrirmyndir.


Vigdís ásamt Jörundi S. Guðmundssyni hlaupafélaga.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég set upp æfingaáætlun í exel fyrir hvert þriggja mánaða tímabil og skrái síðan inn í skjalið hversu vel mér gengur að fylgja þessari áætlun.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, til að fylgjast með því sem er í gangi í hlaupaheiminum.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Í maí s.l. tók ég þátt í 16 km hlaupi á norrænu sjúkrahússleikunum. Hlaupið fór fram í skóglendi í nágrenni Gautaborgar. Aðstandendur hlaupsins voru frekar frjálslegir með skipulagningu og leiðin var lítið merkt. Minn helsti ótti fyrir hlaupið var því sá að ég mundi villast. Þrátt fyrir ítarlegar lýsingar mótshaldara á leiðinni þá tókst mér að taka ranga beygju. Þegar ég áttaði mig á mistökunum og snéri við sá ég að aðrir keppendur höfðu elt mig sem var gott fyrir mig en verra fyrir þá !!