Langhlaupari ársins 2021 - Viðtöl við tilnefnda hlaupara

uppfært 21. febrúar 2022

Hlaup.is tók nokkra af þeim hlaupurum sem mættu við verðlaunaafhendinguna tali og spurði út í æfingar og plönin á þessu ári.

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir byrjaði fyrir 16 árum að hlaupa markvisst með ÍR skokki. Hún keppti ekki mikið fyrstu árin, einbeitti sér að því að hafa gaman og líða vel í hlaupunum og þannig byggði hún upp góðan grunn sem nýttist vel þegar hún fór að keppa að einhverju ráði. Hún tók þátt í 160 km hlaupinu í Henglinum síðasta sumar en hafði þá verið búin að hlaupa 100 km í Hengilshlaupinu. Finnst líka gaman að hlaupa í götuhlaupunum, en þar eru áherslur öðruvísi, meiri hraði og fókus á tíma. Undirbúningur og æfingar fara á fullt í mars og stefnan sett á Mt. Esja Ultra, Laugavegshlaupið og Dyrfjallahlaupið.

Íris Anna Skúladóttir er með bakgrunn í styttri brautarhlaupum og kom verulega á óvart þegar hún náði þriðja sætinu í Laugavegshlaupinu í sumar. Hún þakkar Sigga P. og Laugavegsprógramminu hans fyrir það, en hann m.a. stillti af alla millitíma á leiðinni þannig að ekki skeikaði meira en 1 mínútu á hverjum legg (sjá Utanvegahlaupanámskeið Sigga P. og hlaup.is). Íris Anna á 4 börn og segir að gott bakland sem hjálpar til við pössun, gott skipulag og eiginmaður sem er líka að æfa langhlaup sé mikilvægt. Stór fjölskylda sé langt í frá hindrun í því að æfa hlaup.

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir byrjaði fyrir nokkrum árum að hlaupa með UFA Eyrarskokki. Er að fókusera á götuhlaupin núna, sérstaklega styttri hlaupin. Hún vonast til að bæta maraþon tímann sinn í framtíðinni en er rétt að ná sér af Covid og koma sér í gang aftur.

Arnar Pétursson náði ekki að sýna sitt rétta andlit á síðasta ári, þar sem það sem til þurfti raðaðist ekki rétt upp fyrir hann. Framundan er innanhússtímabil þar sem Arnar ætlar að byggja upp frekari hraða. Hann sér fyrir sér að taka þátt í Laugavegshlaupinu þegar formið er til staðar og réttur tími er kominn fyrir hann. Hann er ekki að fara í maraþon í vor en stefnir á maraþon á næstu 12 mánuðum.

Þórólfur Ingi Þórsson er að undirbúa sig fyrir Hamborgarmaraþon í lok apríl en önnur plön í sumar liggja ekki fyrir. Þórólfur tekur bæði þátt í götuhlaupum og styttri utanvegahlaupunum og hefur sett hvert aldursflokkametið á fætur öðru.