Settu þér reglulega krefjandi og raunhæf markmið sem halda þér við efnið og hvetja þig áfram á hlaupaæfingum. Ég held að galdurinn sé að hafa hæfilega langan tíma á milli markmiða. Láta smá tíma líða eftir að þú nærð persónulegu afreki og leyfa þér að hvíla og njóta áður en þú stekkur á næsta markmið. Mér finnst gott að hafa nokkur markmið í kollinum sem mig langar að ná en fer ekki af stað fyrr en ég er viss um að vera andlega og líkamlega tilbúin í næsta stífa æfingatímabil. Það geta verið örfáar vikur en einnig nokkrir mánuðir.
Margir hafa búið sér til "bucket list" en ég hef aldrei átt slíkan, finnst það setja óþarfa pressu og vil heldur finna spennandi hlaup sem passa mínum áhuga og getu hverju sinni. Ég er búin að læra að njóta hlaupanna meira og gef mér lengri tíma eftir hvert hlaup, en það er alltaf góð tilfinning þegar maður finnur fyrir lönguninni að byrja aftur af krafti og sigrast á einhverju nýju. Elísabet Margeirsdóttir, utanvegahlaupari á heimsmælikvarða.
Sjáðu alla molana í Jóladagatali hlaup.is.
|