Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  S÷gur ˙r hlaupum
12.9.2017
Laugavegspistill eftir ┴rna ١r Finnsson

Undanfari
Á árinu 2009 gekk ég Laugaveginn og hafði þá á orði við göngufélaga minn að það væru bara vitleysingar sem hlypu Laugaveginn - þetta hlytu að vera einhverskonar heljarmenni sem ættu sér ekkert líf og hvað væru þau eiginlega að pæla að fara þessa fallegu leið án þess að njóta náttúrunnar. Það var svo árið 2015 sem ég ákvað eftir eitt sumar af bumbubolta í 4. deildinni að skella mér í mitt fyrsta hálfmaraþon og skyldi það nýtast sem undirbúningur fyrir stærra markmið sem væri á „bucket-listanum" mínum, þ.e. að hlaupa maraþon sem og ég gerði árið 2016. Tíminn í maraþoninu var langt frá því að vera eitthvað til að hrópa húrra fyrir en ég var ánægður að hafa klárað. Eftir þetta fann ég að ég þyrfti stærra markmið og kom því að orði við mág minn að við skyldum skella okkur og hlaupa Laugaveginn.

Undirbúningur
Eftir rysjóttan undirbúning fyrir maraþonið 2016 þar sem var keyrt áfram á hnefanum með engan félagsskap eða marktæka æfingaráætlun ákvað ég að skrá mig á hlaupanámskeið hjá Sigga P. og Torfa hjá Hlaup.is. Ég sé engan veginn eftir þeirri ákvörðun og áttaði mig fljótlega á hve mikilvægt var að vera samferða fólki sem hafði sömu markmið og maður sjálfur - þótt hver og einn væri að vinna að því með sínu nefi. Það var gagnlegt og gaman að hitta aðra meðlimi hlaupahópsins 1-2 í hverri viku, tala um æfingar vikunnar (svo maður gæti hlíft fjölskyldunni að mestu leyti við þeirri umræðu), fá ráðleggingar frá reyndari hlaupurum og smá spark í rassinn af og til. 


Æfingahópurinn á undirbúningstímabilinu. Tekin fyrir u..þ.b. 23 km hlaup fra Suðurbæjarlaug upp á Helgafell og tilbaka.

Upphaflegt markmið mitt var að fara Laugaveginn á 7:30 klst. eða „klára hann" og miðaðist fyrsti mánaðarskammturinn við það. Eftir því sem á leið öðlaðist ég sjálfstraust til að segja við Sigga P. og Torfa að ég væri nú til í að færa tímamörkin neðar og í apríl áætluninni var markmiðið að hlaupa Laugaveginn undir 7:00 klst. enda búinn að klára mínar æfingar samviskusamlega. Þá fóru keppnishlaupin að kikka inn í áætlunina, Víðavangshlaup ÍR, Neshlaupið og Hvítasunnuhlaup Hauka.

Eftir Hvítasunnuhlaupið, sem var farið í fullum Laugavegsskrúða m.t.t. næringar í hlaupinu og áætlaða vatnsnotkun fram að Álftavatni, var ég virkilega farinn að finna fyrir því að æfingarnar væru að skila sér í lappirnar og mér fannst ég léttari á mér í hverju hlaupi.

Voru markmiðin fyrir Laugaveginn því keyrð lengra niður og nú lagt upp með að klára á undir 6:10 klst. Á lokafundi fyrir hlaupið var tíminn settur 6:00 klst. í samráði við þjálfarana og þá komst bara eitt að hjá mér, að sjá 5:XX klst. á klukkunni þegar ég kæmi í mark. Í apríl fengum við skötuhjúin afhenta íbúð sem við gerðum fokhelda, brutum upp nokkur tonn af steypu og komum út o.s.frv. Það kom töluvert niður á hlaupunum á erfiðasta hluta undirbúningsins þar sem ég var orðinn tiltölulega langþreyttur af álagi. Vinna - hlaup - íbúðin - vinna - hlaup - íbúðin var lífið þann mánuðinn.

Laugavegurinn
Vikuna fyrir hafði ég sinnt undirbúningi mjög vel, var ekkert í íbúðinni og náði að borða betur en ég hef gert á ævinni. Ég tók kolvetnahleðslu síðustu þrjá dagana fyrir hlaupið og byrjaði að nota Crampfix salt/steinefnatöflur u.þ.b. tveimur dögum áður. Fann hvernig líkaminn greip strax í allt sem að munni kom og mér fannst ég verða mjög „vatnaður" - las mér til um að fyrir hvert gramm af kolvetni sem líkaminn myndi binda fylgdu 3 grömm af vatni. Þannig að ég vissi að ég væri á góðri leið. Kvöldið áður fór ég á Hrauneyjar og gisti þar. Eftir á að hyggja var það gríðarlega góð ákvörðun.


Stutt í brosið á Brennisteinsöldu.

Þegar upp í Landmannalaugar var komið tók við hefðbundinn undirbúningur með ferðum á klósettið og vangaveltum um klæðnað. Svo varð að ég hóf hlaupið í stuttum hlaupabuxum og á stuttermabol með buff um hálsinn - þannig var ég allan tímann. Kallað var í hólfið og ég kom mér nokkuð framarlega með Svala og Jóni. Á þeirri stundu tók ég verstu ákvörðunina í hlaupinu - ég hreinlega varð að fara og losa mig við stresspissið. Þegar ég kom aftur í hólfið átti ég ekki séns á því að komast á sama stað og byrjaði hlaupið því nokkuð aftarlega með Jóhanni og Arnóri. Þá félaga Svala og Jón sá ég aldrei í hlaupinu en ég hafði átt að vera ca tveimur mín á eftir þeim upp í Hrafntinnusker.

Hlaupið frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker gekk vel - ég var að vísu full fókuseraður á að láta ekki draga mig áfram og var því u.þ.b. 2,5 mín á eftir áætlun þegar upp í Hrafntinnusker var komið á 76,5 mín. Greip banana og pissaði í snjóinn áður en ég rauk af stað. Það var töluverður snjór á leiðinni en það var okkur til happs að við (Jóhann og Arnór) sluppum að mestu við rigninguna en þegar í mark var komið heyrði ég af fólki á undan og eftir okkur sem lentu í slyddu og jafnvél hagléli á þessum kafla við Hrafntinnusker.

Frá Hrafntinnuskeri og niður að Álftavatni var án nokkurs vafa skemmtilegasti parturinn af hlaupinu að undanskildum endanum. Fegurðin að horfa yfir Álftavatn ofan af Jökultungunum var stórbrotin og eflaust einn af fáum stöðum sem ég gaf mér tíma í að horfa upp að ráði. Ég fór mjög hægt niður Jökultungurnar enda heyrt margar sögur af fólki sem hafði farið of geyst þar og orðið að gjalda fyrir það síðar í hlaupinu með súrum og stirðum lærvöðvum. Þetta var góð ákvörðun hjá mér og ég mun fara niður Jökultungurnar með sama hætti í næsta hlaupi. Þegar að Álftavatni var komið hafði ég drukkið minna af vatninu en ég hafði gert ráð fyrir (skrifast eflaust á hitastigið á efstu punktum hlaupsins) og fékk mér því bara banana og hélt svo áfram. Ég var á 2:30 klst. við Álftavatn eða 6 mínútum á eftir áætlun - ekkert stress því ég vissi að ég ætti að vera góður á flatlendinu sem væri framundan.


Við endamarkið, skælbrosandi.

Eftir að hafa lagt af stað frá Álftavatni fór smátt og smátt að skilja á milli okkar Jóhanns og Arnórs en þeir höfðu verið góður félagsskapur á leiðinni til þessa. Það byrjaði að blása hressilega í fangið á manni og maður náði ekki alveg þessu „rúlli" sem maður hafði stefnt að. Markmiðið varð að hlaupa allan tímann þótt hægt væri og alls ekki labba. Á þessum kafla fór ég fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum sem voru margir hverjir farnir að ganga en ég silaðist áfram á 6:00-6:10 pace-i á köflum. Eftir að ég kom yfir Bláfjallakvíslina var einbeitingin ekki alveg til staðar og ég sparkaði í stein á mjög grýttum kafla og datt. Það vildi svo vel til að ég lenti (skv. minni sögu) á að virtist eina blettinum sem var eingöngu sandur. Slapp að mestu með skrekkinn en fann fyrir eymslum í vinstra hnénu eftir þessa byltu. „Are you okay" heyrðist fyrir aftan mig og var þar kominn erlendur hlaupari að nafni Adrian. Við fylgdumst svo að um þó nokkra stund og hann þakkaði mér svo að loknu hlaupi og á Instagram fyrir að „kljúfa vindinn" fyrir hann. Að Emstrum komst ég á tímanum 4:11 klst og var þá ennþá 6 mín á eftir áætlun sem ég tel eftir á að hyggja mjög gott m.v. aðstæður.

Í Emstrum tók starfsmaður hlaupsins á móti mér sem hlýtur að vera engill - hún stappaði í mig stálinu, fyllti á pokann minn meðan ég stökk að pissa og kvaddi mig með hvatningarorðunum „mótvindurinn er búinn - núna er bara logn framundan". Ég varð að faðma hana og þakkaði henni fyrir frábæra þjónustu. Laust eftir Emstrur missti ég einbeitinguna í annað skiptið á hlaupinu og galt fyrir það með þokkalegri byltu. Aftur! Hruflaði mig eitthvað smávegis en það varð bara að halda áfram. Þá fann ég aftur á móti hvað ég blotnaði mikið á bakinu og niður eftir lærunum. Það var komið gat á vatnsblöðruna og ég geri ráð fyrir að hafa átt u.þ.b. botnfylli af vatni í þennan síðasta legg leiðarinnar. Nú varð ég að stóla á vatnsstöðvarnar það sem eftir var.

Þegar ég var kominn 42,2 km varð ég hálf meyr því þá vissi ég að með hverju skrefi sem ég tæki væri ég að slá sjálfum mér við í vegalengd. Ég tók upp myndina sem ég hafði af stelpunum mínum og kyssti þær í bak og fyrir áður en ég kom huganum í réttar stellingar fyrir komandi átök.


Plastaði inn áætlaðan millitím, vegalengdir og auðvitað myndir af stelpunum mínum.

Þennan legg hljóp ég að mestu einn. Eftir að hafa klárað vatnið og u.þ.b. 3 km voru í næstu drykkjarstöð á 49 km. greip ég til þess ráðs að drekka helvítis súra agúrkusafann sem ég hafði meðferðist skv. ráðgjöf frá skíðagöngukappa. Hann var ekki góður á bragðið en ég fann að líkaminn tók honum fagnandi a.m.k. fram að drykkjarstöðinni þar sem vatnsbirgðir út hlaupið voru teygaðar í einum gúlsopa.

Eftir að hafa farið yfir Þröngá rakst ég á Sigga P. sem var eflaust á leið sinni að kasta kveðju á vin sinn sem stóð vaktina í ánni. Siggi sagði við mig „Það er bara upp þessa brekku og svo er þetta bara niður á móti!"

Ég fylltist bjartsýni við þessi orð þangað til að ég komst að því að þessi brekka var aðeins lengri en bara „þessi brekka". Þá gat ég ekki annað en hlegið og rifjað upp allar „þetta eru svona ca 200 metrar í sprett" setningarnar frá æfingatímabilinu þegar sprettirnir enduðu yfirleitt á að vera mun lengri. Þegar ég heyrði loks í kynninum í Húsadal kalla nafnið mitt fékk ég hreinlega kökk í hálsinn sem varð að kyngja fljótt til að lúkka vel á markmyndinni. Í mark kom ég skælbrosandi á tímanum 6:03 klst sem skilaði mér í 44. sæti af tæplega 500 þátttakendum sem voru skráðir í hlaupið.

Næring á hlaupinu
Lagði af stað með níu gel og hafði ákveðið að taka eitt gel á 30 mínútna fresti eftir fyrstu 10 km. Hafði líka meðferðist 100 gr. af möndlum, rúsínum, kasjúhnetum og kókosflögum. Þá hafði ég sett 270 ml. af safa af súrum agúrkum í lítinn brúsa. Planið með gelin gekk fullkomlega upp og ég lét þau nægja auk þess sem ég fékk mér 2 Crampfix töflur fyrir hlaupið og svo eina á hverri klukkustund. Hneturnar voru ekki borðaðar fyrr en í markinu og þeim skolað niður með einum lúxus öl sem kærastan kom með.

Endurheimt
Daginn eftir hlaupið kom dóttir mín til okkar í tveggja vikna sumarfrí. Við fórum upp í sumarbústað þar sem ég skakklappaðist u.þ.b. 4 km. Það hlaup var eflaust erfiðara en Laugavegurinn sjálfur en maður lifandi hvað ég fann að það gerði mér gott. Potturinn í bústaðnum var notaður gríðarlega og þá hafa steikurnar án nokkurs vafa hjálpað til við að ná líkamanum í gang aftur. Það sem eftir lifði vikunnar hjólaði ég nokkra hringi um Grafarvoginn og líkaminn var orðinn góður um miðja viku og að mestu laus við alla strengi a.m.k. þannig að ég arkaði Fimmvörðuhálsinn helgina eftir.

Eftir Laugaveginn
Hef skráð mig í Skokkhóp Hauka en mætt lítið sem ekkert vegna annarra verkefna sem sér þó fyrir endann á. Stefni á að æfa með þeim fram að næsta námskeiði hjá Sigga P og Torfa. Markmið næsta sumars er að fara Laugaveginn aftur og gjörsamlega taka hann í nefið. Laugavegurinn er ekki búinn fyrir mér fyrr en ég er kominn undir 6 klst!

Fleiri Laugavegspistlar á hlaup.is.

 

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is